Körfubolti

Butler og Curry bestir í NBA í nóvember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jimmy Butler.
Jimmy Butler. Vísir/Getty
Jimmy Butler, framherji Chicago Bulls, og Stephen Curry, leikstjórnandi Golden State Warriors, voru valdir bestu leikmenn nóvembermánaðar í NBA-deildinni í körfubolta. Jabari Parker og Andrew Wiggins voru valdir bestu nýliðar mánaðarins.

Jimmy Butler fór fyrir liði Chicago Bulls í nóvember (og október) og var valinn sá besti í Austurdeildinni. Butler var níundi stigahæsti leikmaður mánaðarins með 21,9 stig í leik og komst í tuttugu stigin í ellefu leikjum. Butler hefur verið þekktari fyrir góðan varnarleik en hefur tekið meira af skarið í sókninni í vetur enda að hækka meðalskor sitt um átta stig. Chicago Bulls liðið vann 11 af 17 leikjum sínum í mánuðinum.

Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors unnu 14 af 16 leikjum sínum í nóvember (og október) en Curry fór á kostum og var valinn besti leikmaður Vesturdeildarinnar. Stephen Curry varð fimmti stigahæsti leikmaður mánaðarins með 23,8 stig í leik en hann var einnig í fimmta sæti í stoðsendingum með 7,8 slíkar í leik og í sjöunda sæti í stolnum boltum (1,94 í leik). Curry var annar tveggja leikmanna deildarinnar sem náði að nýta að minnsta kosti 49 prósent skota sinn utan af velli (49,6 prósent), 40 prósent þriggja stiga skota sinna (41,8 prósent) og 90 prósent vítanna (92,3 prósent).

Aðrir sem komu til greina sem leikmenn mánaðarins voru þeir Jeff Teague hjá Atlanta Hawks, LeBron James hjá Cleveland Cavaliers, James Harden hjá Houston Rockets,  Blake Griffin og Chris Paul hjá Los Angeles Clippers, Marc Gasol hjá Memphis Grizzlies, Chris Bosh hjá Miami Heat, Anthony Davis hjá New Orleans Pelicans, LaMarcus Aldridge og Damian Lillard hjá Portland Trailblazers, DeMarcus Cousins hjá Sacramento Kings, Kyle Lowry hjá Toronto Raptors og ohn Wall hjá Washington Wizards.

Jabari Parker hjá Milwaukee Bucks og Andrew Wiggins hjá Minnesota Timberwolves voru valdir bestu nýliðar mánaðarins en þeir voru einmitt valdir fyrsti í nýliðavalinu í sumar. Parker var stigahæstur nýliða (11,9 stig í leik) og í öðru sæti í fráköstum (6,1 í leik) og stolnum boltum (1,33 í leik). Wiggins var í öðru sæti í stigum meðal nýliða (11,6) og efstur í þriggja stiga skotnýtingu (44 prósent).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×