Handbolti

Snorri Steinn missti toppsætið í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Stefán
Snorri Steinn Guðjónsson spilaði meiddur í gær þegar Sélestat tapaði á móti Saint Raphael í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Snorri Steinn kenndi sér meins í  hásin eftir landsleikinn á móti Svartfjallalandi sem var aðeins þremur dögum áður. Hann harkaði hinsvegar af sér og spilaði leikinn meiddur.

Snorri Steinn náði sér hinsvegar ekki á strik, skoraði "bara" 2 mörk úr 9 skotum og náði ekki að fylgja eftir markaskori sínum í fyrstu sjö umferðunum.

Íslenski leikstjórnandinn var búinn að vera markahæsti maður deildarinnar eftir síðustu sex umferðir en missti nú toppsætið til Raphaël Caucheteux, leikmanns Saint-Raphaël.

Snorri Steinn hefur nú skorað 59 mörk í 8 leikjum eða einu marki minna en Caucheteux. Það gera 7,4 mörk í leik hjá Snorra.

Snorri Steinn er samt ennþá sextán mörkum á undan vini sínum Mikkel Hansen í PSG og danska landsliðinu og þá hefur hann skorað 31 marki meira en næstmarkahæsti Íslendingurinn í deildinni sem er Ásgeir Örn Hallgrímsson hjá Nimes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×