Körfubolti

Tvær stórstjörnur úr WNBA-deildinni ætla að giftast hvorri annarri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner og Glory Johnson voru saman í liði á Stjörnuhelgi WNBA-deildarinnar á dögunum.
Brittney Griner og Glory Johnson voru saman í liði á Stjörnuhelgi WNBA-deildarinnar á dögunum. Vísir/AFP
Brittney Griner og Glory Johnson eru í hópi bestu leikmanna WNBA-deildarinnar í körfubolta og það vakti því mikla athygli í Bandaríkjunum þegar þær tilkynntu á samfélagsmiðlum að þær ætli að giftast.

Brittney Griner bað Glory Johnson og setti mynd af því inn á Instagram-síðuna sína þar sem hún sagðist hafa orðið hamingjusamasta persóna í heimi þegar Glory sagði já. Johnson birti síðan mynd af sér á sinni Instagram-síðu þar sem hún lá í rúminu með trúlofunarhringinn á öxlinni.

Þær hafa aðeins verið saman í rúma tvo mánuði en þekkjast vel sem mótherjar bæði í WNBA-deildinni sem og þegar þær léku með Baylor (Brittney Griner) og Tennessee (Glory Johnson) í bandaríska háskólaboltanum.

Brittney Griner er þekktari leikmaður enda sú sem hefur troðið boltanum oftast í sögu kvennakörfuboltans. Griner er 203 sm á hæð og spilar sem miðherji hjá Phoenix Mercury. Hún er með 15,4 stig, 7,9 fráköst og 3,9 varin skot að meðaltali í leik og lið hennar er með besta árangurinn í WNBA-deildinni í ár.

Glory Johnson kom inn í deildina ári á undan Griner og er því á sínu þriðja ári með Tulsa Shock liðinu. Hún er 191 sm framherji og er með 15,0 stig og 9.5 fráköst að meðaltali í leik.

Þær hafa mæst tvisvar sinnum í WNBA-deildinni í ár og Brittney Griner hefur átt stórleik í báðum leikjum. Brittney Griner setti persónulegt stigamet í öðrum leiknum og WNBA-met í hinum með því að verja 11 skot þar af nokkur þeirra frá kærustunni.

Hér fyrir neðan má sjá smá brot af samfélagsmiðlum Brittney Griner og Glory Johnson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×