Shimon Peres Ísraelsforseti hefur beðist afsökunar vegna dauða fjögurra palestínskra barna sem létust í loftárás Ísraelshers þegar þau voru að leik á strönd nærri Gazaborg í gær. „Ég hugsa að þetta hafi verið óviljaverk og okkur þykir miður að þessi fjögur börn hafi látið lífið,“ sagði Peres í samtali við BBC.
Peres segir að fyrir árásina hafi viðvörun verið gefin út og að árásinni hafi verið beint gegn stórri vopnageymslu Hamas-liða. Á vef BBC segir að Ísraelsher sé með málið til rannsóknar.
Að sögn talsmanns Ísraelshers hefur herinn framkvæmt tæplega tvö þúsund árásir á Gaza frá 8. júlí, en Hamas-liðar hafa skotið um 1.400 eldflaugum á Ísrael.
Tugþúsundir ísraelskra hermanna er nú staðsettir nærri landamærum Gaza og er talið að innrás gæti verið yfirvofandi.
Sameinuðu þjóðirnar segja um 1.400 heimili á Gaza hafa eyðilagst og rúmlega 18 þúsund manns séu á vergangi vegna árása Ísraelsmanna.
Peres biðst afsökunar á dauða fjögurra barna

Tengdar fréttir

Vopnahlé rofið þegar eldflaugum var skotið
Hamas-liðar hafa skotið þremur eldflaugum á Ísrael í miðju fimm stunda vopnahléi sem samið var um.