Erlent

Olíuhreinsistöðin í Bají á valdi Isis

Uppreisnarmenn súnníta í Írak undir forystu Isis samtakanna segjast hafa náð fullri stjórn á olíuhreinsistöðinni í Bají, norður af höfuðborginni Bagdad.

Stöðin, sem er sú stærsta í landinu og sér þriðjungi Íraka fyrir eldsneyti, hefur verið umsetinn af Isis mönnum síðustu tíu daga og nú virðast þeir hafa náð þar allri stjórn.

Uppreisnarmennirnir hafa nú stjórn á stórum landsvæðum í norður og vesturhluta landsins, þar á meðal næst stærstu borginni Mosul. Þá stjórna þeir landamærunum inn í Sýrland og Jórdaníu og sækja nú að mikilli vatnsaflsvirkjun við borgina Haditha en nái þeir henni á sitt vald gætu þeir skrúfað fyrir rafmagnið í stórum hluta landsins.

Talsmaður Isis samtakanna fullyrti í gærkvöldi að olíustöðin yrði nú sett í hendurnar á ættbálkahöfðingjum súnníta á svæðinu og að hersveitirnar ætli sér áfram í átt að Bagdad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×