Kraftakarlinn Hafþór Júlíus Björnsson, sem leikur Sir Gregor Clegane, eða Fjallið, í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones, er í viðtali á vefsíðu New York Post.
Hann hefur vakið mikla athygli fyrir leik sinn í þáttunum, sérstaklega í slagsmálasenu sem var í þættinum í fjórðu seríu sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi, sem var ansi hrottafengin. Blaðamaður New York Post spyr Hafþór meðal annars hvað hann hefði þurft að gera í áheyrnarprufu fyrir þættina.
„Við þurftum að fara í gegnum nokkrar senur og lesa línur úr handritinu. Þeir vildu líka að ég myndi sýna hvort ég gæti hreyft mig hratt í bardagasenum og það kom þeim á óvart hve snöggur ég var. Ég er mjög snöggur, ég er ekki að gorta mig; þetta er staðreynd. Síðan báðu þeir mig um að lyfta manni, grípa undir handakrika hans og lyfta honum yfir höfuð mitt. Þeir sögðu að hann liti út eins og barn í höndum mínum. Ég fékk að minnsta kosti hlutverkið. Ég meina, hver myndi ekki elska að leika Fjallið í Game of Thrones?“ segir Hafþór. Hann segir það hafa tekið á að læra sverðfimi fyrir leik sinn í þáttunum.
„Ég var í stífri þjálfun með sverðameistara þáttanna, C.C. Smiff, sem vel á minnst er einnig frábær dansari. Það var mjög erfitt. Við unnum frá því snemma á morgnana þangað til seint á kvöldin í margar vikur en eins og þið getið séð í slagsmálasenunni borgaði þessi erfiðisvinna sig.“
En snýr hann aftur í fimmtu þáttaröð Game of Thrones?
„Þið verðið að spyrja [höfunda þáttanna] Dave [Benioff] og Dan [Weiss]. Þeir eru óútreiknanlegir og vilja halda öllum, og ég meina öllum, á tánum,“ segir Hafþór í viðtalinu.
