Hafþór Júlíus hafnaði í öðru sæti í keppninni Sterkasti maður heims eftir spennuþrungna lokagrein þar sem Žydrūnas Savickas kepptust við að lyfta nýþungum steinum upp á tunnur. Bandaríkjamaðurinn Brian Shaw átti besta tímann, 23,94 sekúndur, áður en Hafþór og Savickas voru ræstir út seinastir enda í efstu tveimur sætunum. Hafþór vissi að ekkert nema sigur í greininni dygði til að eiga möguleika á titlinum. Tækist það og tækist Savickas ekki að bæta tíma Shaw yrði Hafþór krýndur sigurvegari í keppninni.
„Ég var á undan honum en hann var bara rétt á eftir mér. Ég sá að hann var á rúmlega 23 sekúndum en Brian hafði líka verið á rúmlega 23 sekúndum,“ segir Hafþór í samtali við Vísi. Hafþór átti langbesta tímann, 19,46 sekúndur og aðeins spurning hvort Savickas hefði náð öðru eða þriðja sætinu. Við tóku erfiðar mínútur á meðan dómararnir báru saman tímana og reiknuðu lokastöðuna.

Svo fór að Savickas kom í mark á tímanum 23,53 sekúndum sem var 0,42 sekúndum betri tími en tími Shaw. Litháinn hlaut því 64 stig samanlagt en Hafþór Júlíus 63,5 stig.
„Þetta er náttúrulega alveg grátlegt því það munaði svo litlu,“ segir Hafþór. Hann bætir við að aldrei hafi munað svo litlu á milli efstu tveggja í þessari sögufrægu keppni. Okkar maður lítur samt á björtu hliðarnar.
„Maður er náttúrulega að verða betri og betri. Ég vann fjórar greinar af sex,“ segir Hafþór sem hafði forystu í keppninni fram í fimmtu grein af sex. Hann hafnaði hins vegar í sjöunda sætinu í þeirri grein, hnébeygju, sem varð til þess að Savickas tók forystuna fyrir lokagreinina.
„Þetta er kannski mín veikasta grein og ég þarf að bæta mig í henni. Ég ætla að bæta mig í henni. Þetta kemur með tímanum,“ segir Hafþór. Hann minnir á að hann sé rétt að byrja í aflraunakeppnum enda aðeins 25 ára. Til samanburðar verður Savickas, sem vann keppnina í fjórða skipti, 39 ára á árinu.
Hann viðurkennir að svekkelsið sé mikið en hann horfi þó fram á veginn.
„Auðvitað var ég svekktur fyrsta hálftímann eftir keppni en svo verður maður að halda áfram og mæta sterkari til leiks á næsta ári.“