Rígur Noregs og Svíþjóðar þegar kemur að skíðagöngu getur verið einstaklega skemmtilegur og hann nær vanalega hámarki í kringum Ólympíuleikana.
Allt varð vitlaust í herbúðum norska liðsins fyrir fjórum árum í Vancouver þegar Svíarnir hirtu hver verðlaunin á fætur öðrum og voru þeir sem smyrja skíði norska liðsins allir reknir með tölu.
Nú eru Svíar búnir að vinna bæði boðgöngu karla og kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí og eru í heildina með níu verðlaun í skíðagöngu á móti sjö verðlaunum Norðmanna.
Svíarnir nudda erkifjendum sínum upp úr þessu og voru með stóra mynd af Petter Northug, fremsta skíðagöngumanni Noregs, framan á einu blaði þar í landi á dögunum með yfirskriftinni: „Hafið þið séð þennan mann?“ Northug hefur ekki staðið sig í Sotsjí.
Vefsíða norska blaðsins Verdens Gang svarar þó fyrir hönd Norðmanna í dag. Þar er Svíum bent á að líta á heildarfjölda verðlauna en Norðmenn voru búnir að vinna fjórtán verðlaun fyrir daginn í dag en Svíar „aðeins“ þessi níu í skíðagöngunni.
„Allt í lagi. Þið rústuðuð bæði boðgöngu karla og kvenna. Við kunnum ekki að smyrja skíðin og hér í Noregi er krísa í gangi. En við erum samt stóri bróðir. Allavega þegar litið er á verðlaunatöfluna,“ segir í grein VG í dag.
Rígur Norðmanna og Svía heldur áfram því enn á eftir að keppa í 50km göngu karla, 30km göngu kvenna og sprettgöngu í liðakeppni áður en leikunum í Sotsjí er lokið.
![](https://www.visir.is/i/605747FBA74966CB9EB426D2DC0C8D4ADBA129DF3A0632846408537AB2C9D680_713x0.jpg)
![](https://www.visir.is/i/C69FD018B0B1702294EF83F159394A4A1DE95CB39DD6985BDAB5AC41C47D8A25_713x0.jpg)