Körfubolti

NBA í nótt: Durant hafði betur í baráttunni við James

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tveir bestu leikmenn NBA-deildarinnar áttust við í nótt en þar hafði Kevin Durant betur ásamt félögum sínum í Oklahoma City gegn LeBron James og meistaraliði Miami Heat.

Durant skoraði 33 stig fyrir Oklahoma City sem lét slæma byrjun ekki slá sig af laginu. Miami komst snemma í átján stiga forystu, 22-4, en þá rönkuðu gestirnir við sér og skoruðu 87 stig gegn 53 næsta tvo og hálfan fjórðunginn.

Þetta var níundi sigur Oklahoma City í röð en það munaði miklu um framlag þeirra Jeremy Lamb og Derek Fisher af bekknum en þeir voru samanlagt með 33 stig í leiknum.

James var stigahæstur hjá Miami með 34 stig en Chris Bosh bætti við átján stigum og Dwyane Wade fimmtán.

Oklahoma er með dágóða forystu á toppi vesturdeildarinnar en Miami er enn í öðru sæti austurdeildarinnar, þremur sigrum á eftir Indiana.



Toronto er í þriðja sætinu eftir sigur á Orlando, 98-83. Kyle Lowry var með 33 stig og ellefu stoðsendingar og þá bætti Amir Johnson við 22 stigum auk þess að taka ellefu fráköst.

San Antonio er enn í öðru sæti í vestrinu þrátt fyrir að hafa tapað sínum þriðja leik í röð, í þetta sinn fyrir Chicago, 96-86. Manu Ginobili, Kawhi Leonard, Danny Green og Tiago Splitter eru allir frá vegna meiðsla hjá liðinu.



Philadelphia vann Boston, 95-94, þar sem Evan Turner tryggði gestunum sigur með sniðskoti um leið og leiktíminn rann út.

Kris Humphries klikkaði á skoti fyrir Boston þegar tólf sekúndur voru eftir og Philadelphia gerði allt rétt í lokasókninni.

Þetta var aðeins þriðji sigur liðsins í síðustu þrettán leikjum en Boston hefur nú tapað nítján af síðustu 22 leikjum sínum.

Úrslit næturinnar:

Miami - Oklahoma City 95-112

Toronto - Orlando 98-83

Atlanta - Detroit (frestað*)

Boston - Philadelphia 94-95

Milwaukee - Phoenix 117-126

Minnesota - New Orleans 88-77

Dallas - Houston 115-117

Denver - Charlotte 98-101

San Antonio - Chicago 86-96

Sacramento - Memphis 89-99

LA Clippers - Washington 110-103

* Leiknum var frestað vegna slæms veðurs í Atlanta.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×