Handbolti

Enn ein meiðslin hjá íslenska landsliðinu - Snorri meiddist á hné

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/HSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Íslenska landsliðið í handbolta mætir í kvöld Rússum í fyrsta leik liðsins á fjögurra landa æfingamótinu í Þýskalandi en bæði lið eru að undirbúa sig fyrir Evrópumótið sem hefst 12. janúar næstkomandi. Guðjón Guðmundsson sagði frá enn einum meiðslum íslenska liðsins í fréttum á Bylgjunni.

 

Ísland hefur unnið þrjá af fimm síðustu leikjum þjóðanna en liðin mættust síðast á HM á Spáni í byrjun síðasta árs en þá höfðu Rússar sigur, 30-25.

Rússar hafa verið á uppleið í handboltanum undir stjórn Oleg Kuleshov sem lék um árabil undir stjórn Alfreðs Gíslasonar í Þýskalandi hjá bæði Magdeburg og Gummersbach.

Mikil meiðsli eru að hrjá leikmenn íslenska liðsins og nú síðast meiddist Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska liðsins, á hné á æfingu í Dortmund í gærkvöldi. Meiðslin eru ekki talin vera alvarleg.

Samkvæmt heimildum Vísis þá mun Snorri Steinn hvíla í leiknum á móti Rússum í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×