„Hann vekur verulega athygli. Þegar hann var lítill kepptist fólk við að halda á honum og mynda hann þannig að það er mikil skemmtun að hafa hann þarna. Hann er í raun meginaðdráttaraflið þessa dagana,“ segir Björn og hlær. Yrðlingurinn hefur dvalið við búðirnar frá því í byrjun júní og var í fyrstu alinn á mjólk og kattamat. „Nú borðar hann nánast allt og þá helst kjöt. Upphaflega höfðum við hann í búri en nú heldur hann til í kringum búðirnar og kemur reglulega og fær að borða. Það er leikur í honum og honum finnst gaman að vera í kringum fólk.“

Yrðlingurinn hlaut nafnið Funi en nokkru eftir nafngiftina kom í ljós að dýrið hafði verið ranglega kyngreint. „Hann fékk nafnið Funi. Þetta er reyndar kvenkyn en það kom ekki í ljós fyrr en búið var að nefna hann.“ Að sögn Björns hlýðir Funi kalli og kemur um leið og kallað er á hana í mat.

Besti vinur Funa er husky hundurinn Frosti, sá er í eigu eins starfsmanns fyrirtækisins. Þaðan er nafn yrðlingsins komið: frost og funi.