Handbolti

Mikilvægur fallbaráttusigur hjá Eisenach

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aðalsteinn Eyjólfsson.
Aðalsteinn Eyjólfsson. Mynd/Vilhelm
Aðalsteinn Eyjólfsson stýrði sínu liði í Eisenach til sigurs gegn Minden í botnbaráttuslag í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 28-26.

Bjarki Már Elísson og Hannes Jón Jónsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Eisenach sem er nýliði í þýsku deildinni.

Með sigrinum komst Eisenach upp fyrir Minden og situr nú í sextánda sæti deildarinnar með sjö stig en þetta var þriðji sigur nýliðanna á tímabilinu. Vignir Svavarsson skoraði tvö mörk fyrir Minden í dag.

Annað Íslendingalið, Emsdetten, er enn í neðsta sætinu eftir að hafa tapað fyrir Bergischer í dag, 33-27. Oddur Gretarsson skoraði fimm mörk fyrir Emsdetten og þeir Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ernir Arnarson fjögur hvor.

Emsdetten er með aðeins tvö stig og er nú fimm stigum frá öruggu sæti.

Björgvin Páll Gústavsson byrjaði í markinu hjá Bergischer sem er í níunda sæti deildarinnar með fimmtán stig.

Füchse Berlin vann mikilvægan sigur í toppbaráttunni þegar að liðið vann Lübbecke á útivelli, 29-28. Mattias Zachrisson skoraði sigurmarkið á lokasekúndum leiksins.

Dagur Sigurðsson er þjálfari Füchse Berlin sem er í þriðja sæti deildarinnar með 22 stig. Kiel er á toppnum með 24 stig en Flensburg er í öðru sæti með 23. Þess má geta að Kiel á leik til góða á hin liðin.

Úrslit dagsins:

Gummersbach - Magdeburg 22-23

Lübbecke - Füchse Berlin 28-29

Wetzlar - Hannover-Burgdorf 30-27

Hamburg - Göppingen 31-32

Bergischer - Emsdetten 33-27

Eisenach - Minden 28-26




Fleiri fréttir

Sjá meira


×