Handbolti

Danir og Þjóðverjar vilja halda saman HM í handbolta 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Danir vilja fá að halda HM.
Danir vilja fá að halda HM. Mynd/AFP
Ulrik Wilbek, þjálfari danska landsliðsins í handbolta og verðandi íþróttastjóri danska handboltasambandsins, hefur mikla trú á því að HM í handbolta eftir rúm fimm ár geti orðið flottasta keppni sögunnar fari svo að Danir og Þjóðverjar fái að halda keppnina saman.

Á mánudaginn kemur í ljós á fundu Alþjóðahandboltasambandsins í Katar hvort að Danmörk og Þýskaland fái að halda 26. Heimsmeistarakeppni karla í handbolta saman árið 2019 og Ulrik Wilbek er vongóður.

„Heimsmeistarakeppnin myndi fara fram í München, Berlin, Hamburg og Köln í Þýskalandi og svo í Kaupmannahöfn og Herning í Danmörku. Þetta eru allt stórar hallir í stórum borgum og þetta myndi verða stærsta og flottasta heimsmeistarakeppni sögunnar. Áhorfendametið yrði slegið og þetta yrði einstakt mót," segir Ulrik Wilbek við Politiken.

Danir halda næsta Evrópumót í handbolta sem fer fram í upphafi næsta árs. Þeir héldu síðast HM árið 1978 en HM í handbolta fór síðast fram í Þýskalandi árið 2007.

Pólland, Noregur og sameiginlegt framboð Ungverjalands og Slóvakíu vilja einnig fá að halda HM árið 2019.

Næsta heimsmeistarakeppni fer fram í Katar árið 2015 og árið 2017 verður HM í handbolta haldið í Frakklandi. Danir reyndu að fá HM 2017 en þá voru þeir ekki með Þjóðverja með sér í liði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×