Sport

Powell féll líka á lyfjaprófi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ótrúleg tíðindi berast í frjálsíþróttaheiminum en Asafa Powell, fyrrum heimsmethafi í 100 m hlaupi, féll á lyfjaprófi líkt og Bandaríkjamaðurinn Tyson Gay.

Í gær var greint frá því að Gay hefði fallið á lyfjaprófi sem var tekið í maí en ekki hefur verið greint frá því hvað ólöglega efnið heitir sem hann neytti. Hann neitar þó vitneskju um að hafa tekið inn ólöglega lyfið og segir að nákominn aðili hafi brugðist sér.

Powell er svo í hópi fimm íþróttamanna sem féllu á lyfjaprófi á landsmóti Jamaíku í síðustu viku en hann vann gull með 4x100 m boðhlaupssveit Jamaíku á Ólympíuleikunum í London síðastliðið sumar. Powell var heimsmethafi í 100 m hlaupi á undan landa sínum Usain Bolt.

Powell staðfestir að oxilofrine hafi fundist í líkama sínum þegar hann var prófaður en rétt eins og Gay neitar Powell því að hafa haft vitneskju um að hann væri að taka inn ólöglegt efni.

„Ég er ekki svindlari,“ sagði hann við fjölmiðla í heimalandinu. „Málið verður rannsakað í mínu teymi og við heitum fullri samvinnu við yfirvöld.“

Sherone Simpson féll einnig á lyfjaprófi en hún vann silfur með kvennasveit Jamaíku í 4x100 m hlaupi á leikunum í London. Hún vann einnig silfur í 100 m hlaupi kvenna í Peking árið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×