Fótbolti

Líka keppni á milli erkifjendanna Adidas og Puma

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/NordicPhotos/Getty

Þýsku liðin Bayern München og Borussia Dortmund spila til úrslita í Meistaradeildinni á Wembley á morgun en þetta er í fyrsta sinn sem tvö þýsk lið spila til úrslita í keppninni. Þetta verður ekki bara einvígi liðanna tveggja heldur bíða tveir stórir íþróttavöruframleiðendur spenntir eftir úrslitunum.

Þýsku íþróttavöruframleiðendurnir Adidas og Puma eru með þeim þekktustu og virtustu í heiminum. Bayern München hefur spilað í Adidas frá því að elstu menn muna eftir sér en Dortmund fór að leika í Puma-búningum fyrir ári síðan.

Sagan á bak við Adidas og Puma er einnig mjög þekkt en þau urðu til eftir ósætti á milli Dassler-bræðranna, Adolf "Adi" Dassler og Rudolf Dassler á fimmta áratugnum. Adi Dassler stofnaði Adidas en Rudolf stofnaði Puma á öðrum stað í bænum Herzogenaurach í Bæjaralandi.

Frábært gengi Borussia Dortmund í Meistaradeildinni í ár á sinn þátt í að koma Puma-merkinu aftur í umræðuna en síðustu ár hafa Adidas og Nike helst barist um fótboltamarkaðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×