Fótbolti

Innkoma Messi breytti öllu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Barcelona slapp með skrekkinn gegn franska liðinu PSG í kvöld og komst áfram í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu á útivallamarkareglunni.

Fyrri leiknum lauk með 2-2 jafntefli í París og Frakkarnir komu sér í mjög góða stöðu þegar að Javier Pastore kom PSG yfir í upphafi seinni hálfleiks.

PSG vann boltann á eigin vallarhelmingi og Pastore tók á rás eftir laglega sendingu Zlatan Ibrahimovic. Hann komst inn í teig með tvo varnarmenn í sér og vippaði yfir Valdes í marki Börsunga.

Lionel Messi meiddist í leiknum í París og var því á bekknum í kvöld. Hans var greinilega sárt saknað því innkoma hans breytti öllu í leiknum.

Hann sýndi lipra takta þegar hann hóf sókn á 71. mínútu en henni lauk með því að boltinn barst á Pedro sem skoraði með laglegu skoti.

Andres Iniesta komst svo nálægt því að koma Börsungum yfir stuttu síðar en allt kom fyrir ekki. 1-1 jafntefli dugði og Börsungar verða því með í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×