Körfubolti

Brittney til í að taka boði Cuban og reyna við NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brittney Griner.
Brittney Griner. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það vakti mikla athygli þegar Mark Cuban, eigandi Dallas Mavericks, sagðist vera að hugsa um að velja Brittney Griner í nýliðavali NBA-deildarinnar í sumar en Griner hefur verið óstöðvandi í kvennaháskólaboltanum undanfarin ár.

Brittney Griner tróð 18 sinnum á háskólakörfuboltaferli sínum og var með 23,6 stig, 9,0 fráköst og 4,2 varin skot að meðaltali á lokaári sínu með Baylor-háskólanum. Brittney verður örugglega valin fyrst í WNBA-nýliðavalinu 15. apríl næstkomandi en Phoenix Mercury á fyrsta valrétt.

"Hvenær eru æfingabúðirnar?," spurði Brittney Griner eftir að blaðamenn báru pælingar Mark Cuban undir hana. "Ég er að einbeita mér að WNBA núna en ef að ég fæ svona tilboð eftir tímabilið, af hverju ætti ég að hafna því. Það er stórt skref jafnvel þótt að það gangi ekki upp," sagði Brittney Griner sem þótti mikils til þess koma að Mark Cuban skrifaði um hana inn á twitter-síðu sína.

Griner er því til í að láta reyna á hæfileika sína með bestu karlanna í Mavericks-liðinu en þjálfarar í háskólaboltanum hafa ekki verið eins hrifnir og telja að Mark Cuban sé bara á eftir ódýrri auglýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×