Körfubolti

Hrannar réð Finna á danska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pieti Poikola
Pieti Poikola Mynd/Fésbókin
Finninn Pieti Poikola verður næsti þjálfari danska landsliðsins í körfubolta en það var tilkynnt í gær. Hinn 35 ára gamli Poikola fékk fjögurra ára samning eða fram yfir EM 2017. Hann tekur við liðinu af Peter Hofmann.

Hrannar Hólm, íslenskur íþróttastjóri danska körfuboltasambandsins, er ánægður með nýja þjálfarann en Hrannar var í viðtali við netsíðu danska ríkissjónvarpsins.

„Við höfum heyrt mikið um hann og erum við vissir um að við völdum rétt," sagði Hrannar Hólm en 19 þjálfarar sóttust eftir stöðunni.

„Við búumst ekki við að við vinnum alla leiki næsta sumar en stefnan er að liðið bæti sig á hverju ári þessu fjögur ár," sagði Hrannar.

Pieti Poikola hefur þrátt fyrir ungan aldur tvisvar sinnum verið kosinn þjálfari ársins í Finnlandi en hann hefur einnig þjálfað yngri landslið Finna. Hann gerði Tampereen Pyrintö að finnskum meisturum 2010 og 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×