Körfubolti

NBA: Lebron með stórleik í sigri á OKC - Clippers burstaði Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Dwyane Wade fagna í nótt.
LeBron James og Dwyane Wade fagna í nótt. Mynd/AP
LeBron James hitti "bara" úr 58 prósent skota sinna í nótt og gat því ekki bætt við metið sitt (30 stig og 60 prósent skotnýting í sex leikjum í röð) en það var samt ekki mikið hægt að kvarta yfir frammistöðu hans. Los Angeles Clippers fór afar létt með nágrana sína í Los Angeles Lakers í hinum leik næturinnar í NBA-deildinni í körfubolta. Þetta voru síðustu leikirnir fyrir Stjörnuhelgina sem er framundan.

LeBron James var með 39 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar þegar Miami Heat vann 110-100 útisigur á Oklahoma City Thunder. James hitti úr 14 af 24 skotum sínum og hefði haldið metinu gangandi ef hann hefði annaðhvort hitt úr síðasta skotinu eða sleppt því að taka það. Þá var mínúta eftir af leiknum og Miami tíu stigum yfir.

Chris Bosh var með 20 stig og 12 fráköst og Dwyane Wade bætti við 13 stigum og 8 stoðsendingum í þessum sjötta sigri Miami í röð á Oklahoma City Thunder. Miami vann fjóra síðustu leikina í lokaúrslitunum síðasta sumar og vann síðan báða deildarleiki liðanna í vetur.

Kevin Durant skoraði 40 stig og tók 8 fráköst en hann klikkaði á fyrstu sjö skotum sínum í leiknum á meðan Miami náði góðri forystu í upphafi leiks. Russell Westbrook var með 26 stig og 10 stoðsendingar.

Chris Paul skoraði 24 stig og gaf 13 stoðsendingar þegar Los Angeles Clippers vann 125-101 sigur á Los Angeles Lakers. Blake Griffin skoraði 18 af 22 stigum sínum strax í fyrsta leikhlutanum sem Clippers-liðið vann 31-17.

Chauncey Billups skoraði 21 stig fyrir Clippers og setti niður fimm þrista. Þetta er í fyrsta sinn í tuttugu ár sem Los Angeles Clippers vinnur þrjá leiki á móti Lakers á einu tímabili. Kobe Bryant var með 20 stig og 11 stoðsendingar hjá Lakers.

Úrslit allra leikja í NBA-deildinni í nótt:

Oklahoma City Thunder - Miami Heat 100-110

Los Angeles Lakers - Los Angeles Clippers 101-125

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×