Fótbolti

Schweinsteiger: Wilshere einn besti miðjumaður heims

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Bastian Schweinsteiger, leikmaður Bayern Müncen, segir að Arsenal-maðurinn Jack Wilshere sé í dag einn allra besti miðjumaður heims.

Þessi lið eigast við í Meistaradeild Evrópu í kvöld en leikurinn, sem er fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitunum, fer fram í Lundúnum.

„Hann er frábær leikmaður og einn sá besti sem til er í sinni stöðu," sagði Schweinsteiger. „Hann var lengi frá vegna meiðsla en hefur nú sýnt hvað hann getur."

„Margir enskir leikmenn eru hávaxnir en hann er öðruvísi. Hann hefur annars konar hreyfingar en margir aðrir, frábæran vinstri fót og gott auga fyrir samherja sína. Þetta eru hans helstu kostir."

Arsenal féll nýverið úr leik í ensku bikarkeppninni eftir óvænt tap fyrir B-deildarliði Blackburn. Liðið er nú í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Fátt virðist hins vegar geta stöðvað Bayern þessa dagana en liðið er með fimmtán stiga forystu á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið hefur bara tapað einum leik allt tímabilið.

Leikur Arsenal og Bayern hefst klukkan 19.45 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×