Körfubolti

Pavel fór í gang í seinni hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij.
Pavel Ermolinskij. Mynd/Anton
Pavel Ermolinskij og félagar í Norrköping fögnuðu í kvöld sínum fimmta sigri í röð í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta þegar liðið vann átta stiga sigur á Solna Vikings, 91-83, í uppgjör liðanna í 4. og 5. sætinu.

Pavel Ermolinskij var með 10 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum en öll stigin og allar stoðsendingar hans komu í seinni hálfleiknum.

Norrköping var 24-21 yfir eftir fyrsta leikhlutann en staðan var jöfn í hálfleik, 41-41. Pavel klikkaði á öllum þremur skotum sínum í fyrri hálfleiknum og var því búinn að leika fimm hálfleiki í röð án þess að skora körfu.

Pavel kom hinsvegar eins og nýr maður inn í seinni hálfleik og átti mikinn þátt í því að Norrköping tók frumkvæðið í leiknum og tryggði sér flottan sigur. Pavel var með 10 stig og 5 stoðsendingar í seinni hálfleiknum og setti niður öll fjögur skot sín utan af velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×