Körfubolti

Jón Arnór sparaður í sigri Zaragoza

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/Stefán
Jón Arnór Stefánsson var á skýrslu en kom ekkert við sögu þegar lið hans CAI Zaragoza vann 14 stiga heimasigur á CB Canarias, 81-67, í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag. Jón Arnór er að stíga upp úr meiðslum og var sparaður í dag.

Bandaríski bakvörðurinn Michael Roll var stigahæstur hjá CAI Zaragoza liðinu með 18 stig og serbneski miðherjinn Damjan Rudez kom honum næstur með 15 stig.

CAI Zaragoza er með sterkan heimavöll sem sést best á því að liðið var þarna að vinna sinn sjöunda heimaleik í röð en CAI Zaragoza er í 7. sæti deildarinnar með 11 sigra í 19 leikjum.

Jón Arnór var búinn að missa af tveimur leikjum í röð vegna meiðsla og CAI Zaragoza liðið tapaði þeim báðum en þeir voru báðir á útivelli.

Haukur Helgi Pálsson og félagar í Basquet Manresa unnu flottan 83-68 útisigur á Herbalife Gran Canaria. Haukur fékk að spila í 8 mínútur og var með 2 stig og 1 stolinn bolta á þeim tíma. Manresa-liðið er í 17. og næstsíðasta sæti deildarinnar en hefur nú unnið tvo leiki í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×