Formúla 1

Ecclestone segist saklaus af þýskum ákærum

Birgir Þór Harðarson skrifar
Ecclestone hefur lengi verið á milli tannana á fólki. Hann gæti hins vegar verið búinn að koma sér í klípu núna.
Ecclestone hefur lengi verið á milli tannana á fólki. Hann gæti hins vegar verið búinn að koma sér í klípu núna. nordicphotos/afp
Bernie Ecclestone segist vera saklaus af hvaða glæp sem kann að hafa fylgt sölunni á Formúlu 1 til einkahlutafélagsins CVC árið 2006. Ecclestone er sakaður um að hafa borgað þýskum bankastarfsmanni, Gerhard Gribkowsky að nafni, hátt í 3,5 milljarða í mútur svo að salan gengi í gegn.

Ecclestone vonar að málið endi ekki fyrir dómstólum því tímabilið í Formúlu 1 nálgast óðfluga. „Ég myndi óttast dómsmál ef ég væri ekki handviss um að ég sé saklaus," sagði hann.

Gribkowsky situr nú í fangelsi en Ecclestone er sagður hafa millifært milljarðana 3,5 á Gribkowsky þegar sá síðarnefndi hótaði að veita yfirvöldum skattaupplýsingar í tengslum við söluna á Formúlunni.

„Eru þeir að reyna að leiða mig í gildru? Ég hef ekki hugmynd um það og mér er sama. Ég veit bara að fólk reynir allt þegar peningar eru í spilinu."

Áhrifamenn innan Formúlu 1 hafa kastað fram efasemdum um að Ecclestone geti enn sinnt Formúlu 1 eins vel og hann hefur gert síðustu áratugi, bæði væri hann orðinn of gamall og hefði þetta dómsmál í Þýskalandi yfir höfðinu. Það var forseti Ferrari, Luca di Montezemolo, sem kastaði þessu fram.

Ecclestone hefur jafnvel haft það á orði að hann verði látinn hverfa frá Formúlu 1 ef málið dregst. „Við Montezemolo erum enn vinir og ég er viss um að hann vildi í raun ekkert hafa sagt þessa hluti um mig," sagði Ecclestone.




Tengdar fréttir

Ecclestone: Ég er ekki orðinn of gamall

Bernie Ecclestone, alráður í Formúlu 1, svaraði Luca di Montezemolo, framkvæmdastjóra Ferrari-bílaverksmiðjanna, fullum hálsi eftir að hafa frétt frá Luca að hann væri orðinn of gamall til að stjórna Formúlu 1. Hann segist ekkert ætla að slaka á.

Ferrari: Ecclestone er orðinn of gamall

Framkvændastjóri Ferrari-bílaverksmiðjanna, Luca di Montezemolo, segir Bernie Ecclestone vera orðinn of gamall til að stjórna Formúlu 1. Bernie, alráður í Formúlu 1, er 82 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×