Skoðun

Ef táknmálstúlkar segja upp fer líf mitt á hvolf

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir skrifar
Kæru æðstu yfirmenn hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, ég bið ykkur að veita táknmálstúlkum mannsæmandi laun. Ef þeir segja upp fer líf mitt, fjölskyldu minnar, vina minna og margra annarra sem eru mér kærir á hvolf. Nýverið var móðurmál mitt viðurkennt í lögum sem jafnrétthátt íslenskri tungu og er ég stolt af þjóð okkar að stíga það skref.

Mannréttindi, forréttindi eða heppni, ég upplýsi ykkur lesendur góðir, að það að segja mig heppna að fá táknmálstúlk eða að ég ætti að vera þakklát að fá táknmálstúlk er ekki rétt. Ég á rétt á því að vera heil manneskja, móðir barnanna minna, taka þátt í félagslífi þeirra, vera virkur þjóðfélagsþegn og það geri ég með reisn ef borin er virðing fyrir mannréttindum mínum. Ég vil ekki þurfa að vera bogin og skríða til þess að fá að gera þessa hluti í mínu daglega lífi.

Ég og fjölskylda mín njótum lífsins með reisn. Við hjónin erum döff, eigum þrjú yndisleg börn sem hafa alist upp við táknmál frá fæðingu. Við njótum þess að taka þátt í uppeldi þeirra, öllu sem kemur að þeirra daglega lífi. Við sitjum við sama borð og aðrir foreldrar þegar við mætum á viðburði barnanna og táknmálstúlkur túlkar þá, við kynnumst vinum barnanna okkar og foreldrum þeirra, við förum í leikhús með börnunum okkar, ættarmót, fjölskylduboð, fermingu, skírn og allt þetta venjulega sem þið gerið í lífi ykkar. Við erum venjuleg fjölskylda í Kópavoginum sem nýtur þess að vera íslenskir þjóðfélagsþegnar þegar við fáum táknmálstúlk og virðing er borin fyrir mannréttindum okkar til að nota táknmálstúlk óháð stað, stund og kringumstæðum.

Við viljum sinna okkar daglegu skyldum og njóta lífsins á okkar eigin móðurmáli. Hver dagur í bið er dýr fyrir þjóðfélagið og líf okkar, sem og barnanna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×