Skoðun

Ísland sjálfbært sólarland

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Íslensk garðyrkja keppir við sólina í suðurlöndum. Til þess að geta ræktað tómata, agúrkur, káltegundir, papríkur, skrautblóm og hvað það allt nú heitir notar íslensk garðyrkja orkuna úr vatnsföllum og jarðhita íslenskrar jarðar til þess að keppa við sólina í suðurlöndum – sem er víst ókeypis þar. Fyrir það greiðir íslensk garðyrkja 95 aura á hverja kílówattstund þegar aðrir notendur á Íslandi greiða á sjöttu eða á áttundu krónu fyrir sömu kílówattstund. Mismuninn greiða íslenskir skattgreiðendur – sem eru líka íslensk auðlind eins og orkan. Garðyrkjan borgar ekkert fyrir hana. Þess vegna er hún ókeypis. Hlýtur að vera það!

Mikil áhersla er nú lögð á sjálfbært Ísland. Þess vegna eru íslensku auðlindirnar, orkan og skattborgararnir, látnar bera kostnað af þessari samkeppni við sólina. Þar er samt hægt að gera svo miklu betur. Þar væri t.d. hægt að nota íslenskar auðlindir, orkuna og skattborgarana, til þess að byggja sólarstrendur undir plasthimni og spara þar með allar þessar óþörfu orlofsferðir íslenskra sumargesta til Ítalíu, Spánar, Grikklands og annarra ruglulanda í því vonda ESB – svo ekki sé þá talað um múslímaþjóðfélög eins og Tyrkland, Marokkó og Alsír! Þá þyrfti fólk í sumarskapi ekki heldur að éta hættulegt fæði eins og alls staðar er í útlöndum heldur gæti étið lambakjöt og annað hollasta fæði í heimi undir sínum sólarhimni hér uppi á Íslandi.

Með þessu móti væri hægt að ganga enn lengra í að gera íslenska þjóðfélagið sjálfbært – sjálfbært sólskinsþjóðfélag! Bara með því að nota íslensku auðlindirnar rétt – orkuna og skattborgarana.

Gerum Ísland að sjálfbæru sólarlandi! Er til þjóðlegra baráttumál!?! Engin landráð hér á ferðinni!

Og hugsið ykkur alla atvinnuna, sem það myndi skapa. Klörubar í hverju krummaskuði.

Vatnsrennibrautir, tívolí, tapasbarir. Auðvitað yrði Ísland svo alþjóðleg miðstöð sóldýrkenda miklu fyrr en landið getur orðið alþjóðleg fjármálamiðstöð – svona úr þessu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×