Körfubolti

34 titlar á tuttugu árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Ingimundarson lyftir hér bikarnum í Höllinni.
Sigurður Ingimundarson lyftir hér bikarnum í Höllinni. Fréttablaðið/Valli
Sigurður Ingimundarson er sigursælasti þjálfarinn í íslenskum körfubolta og hann er enn að bæta við titlum í afrekaskrána.

Karlalið Keflavíkur varð bikarmeistari undir hans stjórn um helgina og vann þar 21. titilinn sinn undir stjórn Sigurðar. Sigurður hefur einnig unnið 13 titla með kvennaliði félagsins og eru gullin því orðin 34 talsins síðan hann tók við kvennaliði Keflavíkur haustið 1991.

Sigurður var enn fremur að vinna sinn níunda bikarúrslitaleik í Höllinni um helgina en hann vann bikarinn tvisvar sem leikmaður (1993 og 1994), fjórum sinnum sem þjálfari kvennaliðsins (1993-1996) og nú í þriðja sinn sem þjálfari karlaliðsins (1997, 2003 og 2012).

Magnús Þór Gunnarsson hefur unnið marga titla með Sigurði og hefur verið fyrirliði liðsins í tveimur þeim síðustu: Íslandsmeistaratitlinum 2008 og svo bikarmeistaratitlinum um síðustu helgi. Hann þekkir Sigurð betur en flestir.

„Það sem gerir hann að besta þjálfaranum er að það er svo mikill agi hjá honum. Það skiptir engu máli þótt þú heitir Guðjón, Maggi, Gunni Stef, Hafliði eða Valur Orri. Hann lætur alla heyra það. Ég hef líka sagt við ungu strákana eftir tapleiki að ef við hlustum ekki á Sigga þá töpum við en ef við hlustum á hvert einasta orð sem hann segir þá vinnum við hvaða leik sem er," segir Magnús. „Þetta hefur verið svona í gegnum árin ef maður hugsar til baka. Ef maður gerir akkúrat það sem hann segir manni að gera þá vinnum við," segir Magnús Þór og hrósar Sigurði fyrir klókindi á hliðarlínunni.

„Hann er ekki bara leiðinlegur því hann er líka skemmtilegur inn á milli. Hann nær að púsla þessu mjög vel saman og hefur gert það öll þessi ár sem hann hefur þjálfað mig," segir Magnús Þór en hann segir að Keflavíkurliðið hafi alltaf stefnt að því að vinna titla í vetur þrátt fyrir að margir hefðu ekki haft mikla trú á liðinu á haustmánuðunum.

„Það er búið að ala þetta upp í mönnum og það er ekki hægt að taka það í burtu. Svona er bara Keflavík og hefur alltaf verið og svoleiðis á þetta að vera. Maður á ekki bara að vera með, sætta sig við sjötta sætið og fara síðan í frí í mars. Maður á að reyna að vinna alla titla og sem betur fer er maður búinn að vera heppinn að vera með besta þjálfarann og hefur því unnið þá nokkra," segir Magnús og þeir eru ekki hættir í vetur.

„Það er hæpið að við náum þessum deildarmeistaratitli en við eigum einn stóran eftir og við ætlum að taka hann," segir Magnús.

Magnús gerir sér samt vel grein fyrir því að Sigurður er ekki allra en Njarðvíkurliðið náði sem dæmi ekki að blómstra undir hans stjórn.

„Hann er eins og flestir Keflvíkingar, montinn upp fyrir haus. Því miður eru ekki allir sem geta tekið því. Þessi maður á það fyllilega skilið að vera montinn því hann er búinn að sýna það að hann er fremsti þjálfari sem Ísland á," segir Magnús að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×