Körfubolti

Hlynur í ham í flottum útisigri Drekanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Valli
Sundsvall Dragons er að komast á skrið í sænska körfuboltanum en liðið vann flottan fimmtán stiga útisigur á LF Basket, 92-77, í sjöundu umferð sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Þetta var fimmti sigur liðsins í síðustu sex leikjum. Pavel Ermolinskij og félagar hans í Norrköping Dolphins töpuðu á sama tíma og eru ekki að byrja tímabilið vel.

Hlynur Bæringsson átti frábæran leik í liði Sundsvall Dragons og endaði leikinn með 26 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar. Jakob Örn Sigurðarson bætti við 13 stigum, 3 fráköstum og 2 stoðsendingum.

Sundsvall Dragons tapaði fyrsta leiknum sínum á tímabilinu en hefur síðan unnið alla leiki sína fyrir utan naumt og sárgrætilegt tap á útivelli á móti toppliði Borås Basket.

Hlynur Bæringsson fór á kostum í upphafi leiks og var með 11 stig á fyrstu fimm mínútunum á meðan að Sundsvall komst í 17-6. Hlynur hitti úr öllum fjórum skotum á þessum kafla og gaf líka eina stoðsendingu.

Sundsvall var 28-16 yfir eftir fyrsta leikhlutann en LF Basker kom sér inn í leikinn á ný með að vinna næstu sjö mínútur 22-10 og jafna metin í 38-38. Sundsvall-liðið tók þá aftur við sér og var síðan átta stigum yfir í hálfleik, 50-42.

Hlynur hitti úr öllum sex skotum sínum og var með 19 stig og 7 fráköst í fyrri hálfleiknum en Jakob skoraði á sama tíma 8 stig.

Sundsvall komst 13 stigum yfir, 58-46, eftir tæplega þriggja mínútna leik í seinni hálfleik og var sextán stigum yfir, 72-56, fyrir lokaleikhlutann. Sigurinn var síðan aldrei í hættu í fjórða og síðasta leikhlutanum.

Pavel Ermolinskij var frákastahæstur í liði Norrköping Dolphins sem tapaði með 13 stiga mun á útivelli á móti 08-liðinu frá Stokkhólmi, 68-81. Pavel var með 4 stig og 10 fráköst en hitti aðeins úr 1 af 7 skotum sínum.

Pavel byrjaði ekki vel og klikkaði á öllum fimm skotunum utan af velli og báðum vítunum í fyrsta leikhlutanum sem Norrköping tapaði 13-21. Pavel var kominn með 4 stig og 7 fráköst í hálfleik en Norrköping var enn sex stigum undir, 33-39.

Það munaði aðeins sex stigum á liðunum, 43-37, þegar Norrköping átti annan slæman kafla, fékk á sig tíu stig í röð og lenti 16 stigum undir, 53-37. Eftir það var 08-liðið með sigurinn í hendi sér og vann að lokum með 13 stiga mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×