Körfubolti

Kevin Love úr leik hjá Timberwolves næstu 6-8 vikurnar

Kevin Love verður frá keppni næstu 6-8 vikurnar.
Kevin Love verður frá keppni næstu 6-8 vikurnar. AP
Kevin Love, leikmaður NBA liðsins Minnesota Timberwolves, verður frá keppni í 6-8 vikur, og missir bandaríski landsliðsmaðurinn af allt að 22 fyrstu leikjum liðsins á næsta keppnistímabili. Love varð fyrir því óhappi að brjóta tvo fingur á hægri hönd, en hann var staddur í lyftingasal liðsins þegar atvikið átti sér stað.

Hinn 24 ára gamli Love hefur á undanförnum misserum skipað sér í röð allra bestu framherja NBA deildarinnar en hann skoraði 26 stig að meðaltali í leik á síðasta tímabili og tók 13,3 fráköst að meðaltali í leik.

Minnesota hefur gert miklar breytingar á liði sínu í sumar og stefnan er sett á að koma liðinu í úrslitakeppnina – í fyrsta sinn frá tímabilinu 2003-2004. Meiðsli Love setja þær áætlanir í uppnám en það er óvíst hvenær spænska landsliðsmaðurinn Ricky Rubio verður klár í slaginn með liðinu. Leikstjórnandinn sleit krossband í mars og er hann enn að jafna sig á þeim meiðslum.

Love skrifaði undir fjögurra ára samning í desember árið 2011 en hann fær um 7,3 milljarða kr. í sinn hlut á samningstímanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×