Körfubolti

Haukur hættur hjá Maryland: Vill komast að hjá liði í Evrópu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Haukur Helgi fór á kostum á Evrópumóti U20 ára í Bosníu í júlí.
Haukur Helgi fór á kostum á Evrópumóti U20 ára í Bosníu í júlí. Mynd/KKÍ
Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður Íslands í körfuknattleik, hefur tekið þá ákvörðun að hætta að spila með Maryland-háskóla. Hann vonast til þess að komast að hjá félagi í Evrópu.

„Ég held að leikstíllinn minn henti betur í Evrópu. Mér hefur fundist mun skemmtilegra að spila í Evrópu en í Bandaríkjunum. Þetta er meira alhliða körfubolti í Evrópu," segir Haukur.

Haukur, sem er 19 ára, stóð sig vel á fyrsta ári sínu með skólaliðinu í fyrra.

„Jú, það gekk ágætlega úti. Ég byrjaði í seinustu tveimur leikjunum mínum, sem er mjög gott fyrir fyrsta árs nema. En þótt það hafi gerst leitaði hugurinn alltaf til Evrópu," segir Haukur.

Þjálfaraskipti urðu hjá Maryland-háskóla að loknu síðasta tímabili. Haukur segir skiptin ekki haft áhrif á ákvörðun sína.

„Nei, svo sem ekki. Ég hef heyrt mjög góða hluti um nýja þjálfarann. En það var auðvitað leiðinlegt að þjálfarinn sem fékk mig út hafi hætt. En það hafði svo sem ekkert með ákvörðunina að gera," segir Haukur.

Haukur segir vissulega áhættu fólgna í því að segja upp fullum skólastyrk í þeirri von að komast að hjá félagi í Evrópu.

„Það er náttúrulega alltaf áhætta eins og heimurinn er í dag. En ég vona það besta. Það er ekkert skrifað í stein hvort ég fer eitthvað eða ekki. En vonandi gerist það og ég er frekar bjartsýnn," segir Haukur, sem segir nokkur félög í Evrópu hafa sýnt honum áhuga.

„Ég hefði mjög gaman af því að spila á Ítalíu eða á Spáni. En maður veit aldrei hvar maður endar sitt fyrsta atvinnutímabil í körfuboltanum ef af verður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×