Lífið

Ný tónlistarhátíð haldin í vor

lofar flottri hátíð Kristján Freyr Halldórsson lofar skemmtilegri tónlistarhátíð í apríl.fréttablaðið/valli
lofar flottri hátíð Kristján Freyr Halldórsson lofar skemmtilegri tónlistarhátíð í apríl.fréttablaðið/valli
„Það vantar bara partí,“ segir Kristján Freyr Halldórsson hjá Kimi Records.

Útgáfufyrirtækið skipuleggur í fyrsta sinn tónlistarhátíðina Reykjavík Music Mess sem verður haldin dagana 16. og 17. apríl.

„Við vorum að hugsa um hvernig allar þessar hátíðir raðast einhvern veginn á haustið, eins og Airwaves, kvikmyndahátíðir og tískuhátíðir. Það er alveg frábært en jafnvægið með vorinu er kannski ekki mikið,“ segir Kristján Freyr. „Það bíða kannski allir eftir Aldrei fór ég suður um páskana en frá áramótum fram að því er eins og maður eigi bara að safna skeggi og vera þunglyndur.“

Bandaríska indíhljómsveitin Deerhunter verður aðalnúmer Reykjavík Music Mess og verða tónleikar hennar á Nasa. Aðrir tónleikastaðir verða Norræna húsið, sem hjálpar til við innflutning norrænna hljómsveita á hátíðinni, og ný verslun Havarís.

„Vonandi kemur fullt af fólki að horfa á þessa frábæru hljómsveit,“ segir Kristján Freyr um Deerhunter, sem gaf út plötu sem fékk mjög góðar viðtökur tónlistargagnrýnenda á síðasta ári. Á meðal annarra hljómsveita sem stíga á svið verða Lower Dens frá Bandaríkjunum, Nive Nielsen frá Grænlandi og hin finnska Tomutonttu. Einnig kemur fram fjöldi íslenskra flytjenda, þar á meðal Mugison, Sin Fang, Kimono og Skakkamanage.

Miðasala á hátíðina hefst 4. mars á síðunni Reykjavikmusicmess.com. Aðeins verður hægt að kaupa miða á alla hátíðina í einu og fyrstu vikuna verður miðaverð á sérstöku tilboði, eða 6.990 krónur. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×