Enski boltinn

Gattuso: Missti stjórn á sjálfum mér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Gennaro Gattuso, fyrirliði AC Milan hefur beðist afsökunar á því að hafa skallað Joe Jordan, aðstoðarþjálfara Tottenham, eftir leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær.

Tottenham vann leikinn, 1-0, en leikmönnum var mörgum heitt í hamsi og áttu þeir Gattuso og Jordan einnig orðaskipti á meðan leiknum stóð.

„Ég missti stjórn á sjálfum mér," sagði Gattuso við fjölmiðla eftir leikinn í gær. „Ég get ekki afsakað hegðun mína og verð að taka afleiðingunum."

„Ég var taugaóstyrkur. Ég vildi ekki rífast við leikmennina og því reifst ég við hann. En hegðun mín var röng."

Gattuso fékk að líta gult spjald í leiknum og mátti ekki við því. Hann verður í leikbanni í síðari leik liðanna á heimavelli Tottenham en líklegt er að hann fái enn lengra bann fyrir hegðun sína eftir leikinn í gær.

„Ég biðst afsökunar á því að hafa skallað hann. Það hefði ég ekki átt að gera. Ég talaði einnig við Joe á meðan leiknum stóð en segi ekki hvað var sagt."

„Ég á ekkert sökótt við leikmenn Tottenham - bara Joe Jordaon. Við töluðum saman á skosku," sagði Gattuso sem lék áður með Glasgow Rangers en Jordan er sjálfur skoskur.

Jordan þekkir þó vel til á Ítalíu og lék með AC Milan í tvö ár, frá 1981 til 1983, og Hellas Verona, sem Emil Hallfreðsson leikur með í dag, í eitt tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×