Körfubolti

Öll Íslendingaliðin unnu sína leiki í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson skoraði 15 stig í kvöld.
Jakob Sigurðarson skoraði 15 stig í kvöld. Mynd/Valli
Öll Íslendingaliðin voru á ferðinni í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Sundsvall Dragons, lið Hlyns Bæringsson og Jakobs Arnar Sigurðarsonar, styrkti stöðu sína á toppnum, Uppsala Basket, lið Helga Más Magnússonar, vann stóran sigur á heimavelli en Logi Gunnarsson lék ekki með Solna Vikings sem náði að enda fjögurra leikja taphrinu sínu.

Sundsvall Dragons vann sinn fjórða sigur í röð og sinn 17. sigur í síðustu 18 leikjum þegar liðið vann 87-68 sigur á Sodertelje Kings á heimavelli. Jakob Sigurðarson skoraði 15 stig og Hlynur Bæringsson var með 11 stig og 6 fráköst. Sundsvall er með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar.

Helgi Már Magnússon var með 11 stig og 7 fráköst þegar Uppsala Basket vann 95-68 sigur á heimavelli á móti 08 Stockholm. Uppsala er áfram í 5. sæti deildarinnar.

Logi Gunnarsson var ekki með liði Solna Vikings sem endaði fjögurra leikja taphrinu með því að vinna 65-51 sigur á Orebro Basket. Solna er áfram í 6. sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×