Fótbolti

Klose íhugar að spila utan Þýskalands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Bongarts
Miroslav Klose er nú að íhuga hvort hann eigi að flytja sig um set og reyna fyrir sér utan Þýskalands.

Hann er nú á mála hjá Bayern München en hefur lítið fengið að spila með liðinu. Hann var í byrjunarliðinu í fyrstu sex leikjum tímabilsins en síðan missti hann sætið sitt og hefur síðan í lok september aðeins einu sinni komið inn á sem varamaður.

Honum hefur ekki enn tekist að skora í deildinni á tímabilinu en á meðan hefur Mario Gomez verið sjóðandi heitur og skorað tólf mörk í fimmtán leikjum.

Samningur Klose rennur út í lok leiktíðarinnar. „Fyrst mun ég ræða við Bayern um framhaldið en ég er opinn fyrir öllu og sé fyrir mér í fullri alvöru að fyrir annað lið í þýsku úrvalsdeildinni eða í öðru landi."

Klose er 32 ára gamall en ætlar sér að spila með þýska landsliðinu á EM í Póllandi og Úkraínu árið 2012. Klose er einmitt fæddur í Póllandi.

Ferill hands með landsliðinu er ótrúlegur. Hann á að baki 105 leiki og hefur skorað í þeim 58 mörk og er næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu með 14 mörk, ásamt landa sínum Gerd Müller.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×