Körfubolti

Krzyzewski náði einstökum áfanga

Það var hjartnæm stund þegar tveir sigursælustu þjálfararnir í sögu bandaríska háskólaboltans féllust í faðma eftir leik. Rúmlega 1.800 sigurleikir sem þeir eiga saman.
Það var hjartnæm stund þegar tveir sigursælustu þjálfararnir í sögu bandaríska háskólaboltans féllust í faðma eftir leik. Rúmlega 1.800 sigurleikir sem þeir eiga saman. afp
Mike Krzyzewski, þjálfari Duke, varð síðustu nótt sigursælasti þjálfarinn í bandaríska háskólaboltanum. Hann vann þá sinn 903. leik á ferlinum.

Krzyzewski sló þar með met læriföður síns, Bobby Knight, sem þjálfaði Indiana lengstum og er einn litríkasti karakterinn í bandarísku íþróttalífi frá upphafi.

Duke lagði Michigan State, 74-69, í Madison Square Garden og Knight var á staðnum en hann var að lýsa leiknum í sjónvarpi. Eftir leikinn var Knight manna fyrstur niður á gólf til þess að óska Krzyzewski til hamingju með áfangann.

Krzyzewski átti erfitt með tilfinningarnar eftir leikinn og nánast brotnaði saman í fanginu á Knight.

"Ég veit að þeir eru ekki margir sem segja þetta við þig, þjálfari. En ég elska þig," sagði Krzyzewski við Knight.

Knight er afar hnyttinn maður. Hann brosti til Krzyzewski og sagði: "Þú hefur staðið þig helvíti vel miðað við mann sem kann ekki að kasta körfubolta."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×