Handbolti

Bjerringbro/Silkeborg tapaði en Nordsjælland vann

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Guðmundsson skoraði þrjú fyrir Nordsjælland í dag.
Ólafur Guðmundsson skoraði þrjú fyrir Nordsjælland í dag. Mynd/Stefán
Guðmundur Árni Ólafsson og félagar í danska liðinu Bjerringbro/Silkeborg töpuðu í dag fyrir ungverska liðinu Veszprem í Meistaradeild Evrópu, 32-25.

Ungverjar byrjuðu vel og komust í 4-1 forystu en Danirnir náðu að minnka muninn í eitt mark, 11-10. Þá tóku heimamenn öll völd í sínar hendur og fóru inn í seinni hálfleikinn með sex marka forystu, 17-11.

Eftir það var það aldrei spurning um hvort liðið myndi standa uppi sem sigurvegari og hefur því Bjerringbro/Silkeborg tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í B-riðli Meistaradeildarinnar. Liðið mætir næst Íslendingaliðinu Füchse Berlin frá Þýskalandi.

Þá var einnig spilað í EHF-bikarkeppninni í dag. Ólafur Guðmundsson skoraði þrjú mörk þegar að lið hans, Nordsjælland, vann sjö marka sigur á HC Dukla Praha frá Tékklandi, 31-24, í dag. Liðin mætast svo aftur um næstu helgi en þá í Tékklandi.

Einar Ingi Hrafnsson skoraði svo þrjú mörk fyrir Mors-Thy sem vann þriggja marka sigur á Lemvig-Thyborön í dönsku úrvalsdeildinni í dag, 31-28.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×