Körfubolti

Spánn, Þýskaland og Frakkland á sigurbraut á EM í körfu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dirk Nowitzki var sáttur í leikslok.
Dirk Nowitzki var sáttur í leikslok. Mynd/Nordic Photos/Getty
Spánn, Þýskaland og Frakkaland héldu áfram sigurgöngu sinni á EM í körfubolta í Litháen en annar leikdagur mótsins fór fram í dag. Serbía, Grikkland, Rússland, Slóvenía og Litháen hafa líka unnið tvo fyrstu leiki sína en liðin spila í fjórum sex liða riðlum.

Pau Gasol skoraði 20 stig í 87-73 sigri Spánverja á nágrönnum sínum í Portúgal og Juan Carlos Navarro var með 19 stig.

Dirk Nowitzki (21 stig, 12 fráköst) og Chris Kaman (17 stig, 17 fráköst) fóru á kostum í 76-62 sigri Þjóðverja á Ítölum. Ítalir hafa tapað tveimur fyrstu leikjum sínum en Danilo Gallinari var atkvæðamestur þeirra með 17 stig og 11 fráköst.

Tony Parker var með 21 stig og 8 stoðsendingar þegar Frakkar unnu 85-68 stórsigur á Ísrael.

Heimamenn í Litháen unnu öruggan 97-77 sigur á Pólverjum sem höfðu staðið í Spánverjum kvöldið áður. Leikstjórnandinn Mantas Kalnietis var með 19 stig og 6 stoðsendingar en hann hitti úr öllum átta skotum sínum í leiknum.

Serbar unnu 92-77 sigur á Lettum, Tyrkir unnu Breta 90-61, Rússar unnu Georgíumenn 65-58, Grikkir unnu 81-61 stórsigur á Finnum og Slóvenar unnu 68-64 sigur á Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×