Fótbolti

Þjálfari Wolfsburg sektar leikmenn fyrir að hlýða sér ekki inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Felix Magath.
Felix Magath. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Felix Magath, þjálfari þýska liðsins Wolfsburg, kallar ekki allt ömmu sína og þegar hann skipar fyrir þá eiga leikmenn hans að hlýða. Magath hefur nú sektað tvo leikmenn Wolfsburg um tíu þúsund evrur hvorn til að klikka á því að fylgja leikskipulagi hans inn á vellinum en það er sekt upp á 1,6 milljónir íslenskra króna.

Kicker-blaðið sagði frá því í dag að framherjarnir Patrick Helmes og Mario Mandzukic hafi báðir fengið þessa sekt eftir leik liðsins á móti Borussia Moenchengladbach sem fram fór 18. ágúst síðastliðinn. Wolfsburg tapaði leiknum 1-4.

Felix Magath er kallaður “Quaelix” í Þýskalandi sem er samspil af nafni hans og sögninni quaelen sem þýðir pína eða pynding.

Hinn 27 ára gamli Patrick Helmes hefur þurft að æfa einsamall síðan á fimmtudaginn var en hann hefur skorað tvö mörk í fjórum deildarleikjum á tímabilinu. Ástæðan er sú samkvæmt Felix Magath að Helmes sé ekki að hlaupa nógu mikið í leikjum liðsins.

 

„Hann hleypur ekki nógu mikið. Við munum halda þessu áfram þar til að hann kemst í almennilegt form. Hann á að sjálfsögðu möguleika á að komast fljótt inn í liðið aftur," sagði Felix Magath í viðtali á heimasíðu Wolfsburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×