Körfubolti

Jón Arnór vill vera áfram á Spáni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Stefán
Jón Arnór Stefánsson segir í samtali við vefsíðuna karfan.is að hann vilji spila áfram í spænsku úrvalsdeildinni.

Lið hans, CB Granada, er þegar fallið úr deildinni en samningur Jóns Arnórs rennur út í lok leiktíðarinnar. Lokaumferð deildakeppninnar fer fram um helgina og þá mun Jón Arnór líklega spila sinn síðasta leik fyrir félagið.

Honum stóð til boða að fara bæði til Belgíu og Ítalíu og taka lokasprettinn á tímabilinu í þeim löndum. Jón Arnór er þó þegar búinn að hafna tilboðinu frá belgíska liðinu.

„Svo eru hreyfingar fyrir næsta ár og lið á Spáni hafa haft samband. Mig langar að halda áfram í ACB,“ sagði Jón Arnór við síðuna.

„Það er einn leikur eftir í deildinni (með CB Granada) og ég klára hann. Þetta hefur verið skrautlegt ár en það fer í reynslubankann,“ bætti hann við.

Sem stendur er þó óvíst hvort hann taki tilboði ítalska liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×