Körfubolti

Hlynur rekinn út úr húsi og Sundsvall tapaði fyrsta leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson
Hlynur Bæringsson Mynd/Valli
Hlynur Bæringsson var rekinn út úr húsi í fyrsta leik úrslitaeinvígis Sundsvall Dragons og Norrköping Dolphins um sænska meistaratitilinn í dag. Sundsvall tapaði leiknum með einu stigi á heimavelli sínum, 78-79, eftir að hafa verið í mjög góðri stöðu til að vinna leikinn á lokakaflanum.

Hlynur var með 14 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar í leiknum en Jakob Sigurðarson var með 11 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.

Sundsvall byrjaði leikinn skelfilega, Norrköping skoraði átta fyrstu stigin,  komst í 17-3 og 20-7 og staðan var síðan 20-10 fyrir Norrköping-liðið eftir fyrsta leikhlutann.

Norrköping var síðan 25-12 yfir þegar átta mínútur voru til hálfleiks en þá átti Hlynur Bæringsson mikinn þátt í að koma Sundsvall aftur inn í leikinn. Sundsvall vann sex mínútna kafla 20-5 og Hlynur skoraði 10 af þessum stigum.

Sundsvall var þremur stigum yfir í hálfleik, 39-36, og komst síðan átta stigum yfir í upphafi seinni hálfleiks með því að skora fimm fyrstu stigin í þriðja leikhlutanum. Norrköping átti góðan endasprett í þriðja leikhlutanum og minnkaði muninn í tvö stig 58-56, fyrir lokaleikhlutann.

Stóri dómur leiksins kom síðan í upphafi fjórða leikhlutans. Hlynur var þá rekinn út úr húsi í stöðunni 64-61 þegar sjö mínútur voru eftir. Það var mjög skrýtinn dómur enda sparkaði Bandaríkjamaðurinn George Gervin í andlitið á Hlyn eftir að þeir lentu báðir í gólfinu. Gervin var líka rekinn útaf en Hlynur var væntanlega ósáttur með að þurfa að fara sömu leið. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta þýði leikbann fyrir Hlyn eða hvort hann geti spilað næsta leik.

Leikmenn Sundsvall náðu í kjölfarið sjö stiga forskoti, 74-67, en Norrköping kom strax til baka og lokamínúturnar voru síðan æsispennandi. Jakob klikkaði á þremur skotum á lokakaflanum sem reyndist á endanum vera dýrkeypt.

Anton Saks tryggði Norrköping síðan eins stigs sigur 14 sekúndum fyrir leikslok þegar hann skoraði eftir sóknarfráköst. Sundsvall tókst ekki að nýta síðustu sóknina sína og Norrköping fagnaði sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×