Körfubolti

Ótrúleg frammistaða Íslendinganna í Sundsvall dugði ekki til

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jakob og Hlynur.
Jakob og Hlynur. Mynd/Valli
Þrátt fyrir að Jakob Sigurðarson hafi skorað 29 stig fyrir Sundsvall Dragons í kvöld dugði það samt ekki til sigurs gegn Jämtland í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í kvöld. Logi Gunnarsson og félagar hans í Solna unnu nauman sigur á Norrköping á sama tíma.

Jämtland vann leikinn, 86-75, eftir nokkuð kaflaskiptan leik. Sundsvall var með nauma forystu í hálfleik, 43-42, en skoraði svo ekki nema níu stig í þriðja leikhluta.

Jämtland tók af skarið og náði mest þrettán stiga forystu snemma í fjórða leikhluta. Þá tóku þeir Jakob og Hlynur Bæringsson til sinna mála en saman skoruðu þeir alls 20 af 23 stigum Sundsvall í fjórða leikhlutanum. Jakob var allt í öllu og skoraði sextán stig í fjórða leikhluta en Hlynur fjögur.

Það dugði samt ekki til. Sundsvall náði mest að minnka muninn í þrjú stig þegar tæpar tvær mínútur voru eftir en þá jók Jämtland aftur muninin og vann sem fyrr segir nokkuð þægilegan sigur.

Hlynur fékk sína fimmtu villu í leiknum þegar hálf mínúta var eftir og kláraði því ekki leikinn. Hann skoraði alls níu stig og tók tíu fráköst.

Jakob átti sem fyrr segir stórleik en hann gaf sjö stoðsendingar og tók fjögur fráköst auk stiganna 29 sem hann skoraði í leiknum. Hann var langstigahæsti leikmaður Sundsvall í leiknum. Jakob lék í 34 mínútur í kvöld en Hlynur átján.

Sundsvall er núverandi deildarmeistari en Jämtland varð í áttunda sæti deildarinnar. Staðan í einvígi liðanna í fjórðungsúrslitum úrslitakeppninnar er nú jöfn, 1-1.

Þá unnu Logi og félagar hans í Solna góðan sigur á Norrköping, 81-80, og jöfnuðu þar með metin í 1-1 í rimmu liðanna í fjórðungsúrslitunum.

Solna var með yfirhöndina í hálfleik, 44-42, en Norrköping byrjaði mjög vel í þeim síðari og komst mest átta stigum yfir í þriðja leikhluta.

En Logi og félagar náðu að jafna leikinn á ný og voru með frumkvæðið lengst af í fjórða leikhluta. Staðan var þó jöfn, 75-75, þegar ein og hálf mínúta var til leiksloka.

Það var mikil spenna á lokamínútu leiksins en Norrköping komst yfir, 80-79, þegar sextán sekúndur voru eftir. Solna átti þó síðasta orðið og skoraði sigurkörfuna fimm sekúndum fyrir leikslok.

Logi skoraði sjö stig og tók fimm fráköst á þeim 33 mínútum sem hann spilaði í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×