Körfubolti

Háskólaferli Helenu lokið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Helena í leik með TCU fyrir stuttu.
Helena í leik með TCU fyrir stuttu. Mynd/AP
Helena Sverrisdóttir lék í nótt sinn síðasta leik með TCU í bandaríska háskólaboltanum og er því glæsilegum fjögurra ára ferli hennar með liði skólans lokið.

Helena kvaddi með stæl í nótt þegar að hún náði þrefaldri tvennu í leik TCU gegn Oral Roberts-skólanum, 78-74. Hún skoraði sextán stig, tók tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar.

Þetta var aðeins í þriðja skipti í sögu skólans sem leikmaður liðsins nær þrefaldri tvennu í leik en Helena var að ná þessum áfanga í annað skiptið.

Helena var kjörinn leikmaður ársins á síðasta tímabili og í ár fylgdi hún liði sínu alla leið í úrslitaleik Mountain West-deildarinnar. Því miður tapaðist leikurinn og komst því TCU ekki í 64-liða úrslit NCAA-deildarinnar. Helena var þó valin í fyrsta úrvalslið deildarinnar.

Helena bætti mörg met á ferli sínum hjá TCU og er á meðal efstu manna í allra helstu tölfræðiþáttum í sögu skólans. Til dæmis komst hún í nótt í annað sæti yfir þá sem hafa tekið flest fráköst á ferlinum með TCU.

Ljóst er að Helena náði glæsilegum árangri á sínum ferli með TCU og ljóst að hennar verður sárt saknað í liði skólans. Hvað tekur við hjá Helenu er óljóst en hún mun án nokkurs vafa láta til sín taka á körfuboltanum, annað hvort áfram í Bandaríkjunum eða í sterkri deild í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×