Lífið

Tónlistarferillinn Pearl Jam að þakka

Magna dreymir um að fá Pearl Jam til landsins.
Magna dreymir um að fá Pearl Jam til landsins.

„Ég kenni útrásarvíkingunum og íslensku krónunni um að Pearl Jam hafi ekki ennþá komið til landsins," segir Magni Ásgeirsson söngvari og aðdáandi rokksveitarinnar Pearl Jam.

Magni og nokkrir valinkunnir tónlistarmenn eru að skipuleggja tónleika til heiðurs Pearl Jam á Sódómu annað kvöld. „Það er eiginlega þeim að þakka, og þá helst söngvaranum Eddie Vedder, að ég fór út í þennan bransa, ja, þakka eða kenna," segir Magni.

Pearl Jam gaf það út á dögunum að Ísland væri á óskalista sínum yfir staði til að sækja heim en lengi hefur staðið til að fá sveitina til landsins. „Ég veit til þess að margir hafa reynt að fá Pearl Jam hingað og rétt fyrir hrunið var það nánast í höfn, en svo fór sem fór og íslenska krónan ekki þessum mönnum bjóðandi," segir Magni en hann hefur verið aðdáandi sveitarinnar frá því hann var 12 ára og platan Ten kom út. „Ég fór á tónleika með þeim í Danmörku fyrir um tveimur árum síðan. Það var í fyrsta sinn sem þeir spiluðu í Danmörku frá slysinu á Hróarskelduhátíðinni árið 2000. Það voru magnaðir og tilfinningaþrungnir tónleikar," segir Magni og heldur í vonina um að sveitin komi hingað fyrr en seinna.

Að sögn Magna munu áhorfendur fá að heyra allt frá ballöðum að rokklögum sveitarinnar á tónleikunum en spurður um sitt uppáhaldslag með Pearl Jam vefst honum tungu um tönn. „Ég get ómögulega valið eitt lag því fyrir mér er platan Ten eitt stórt frábært lag. Pearl Jam er hljómsveit sem gerir þetta fyrir tónlistina en ekki peninginn." - áp








Fleiri fréttir

Sjá meira


×