Breiðablik tapaði 1-0 í fyrri leiknum á móti skoska liðinu Motherwell í 2. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í kvöld. Sigurmark Motherwell kom eftir rúmlega klukkutíma leik. Þetta var fyrsti Evrópuleikurinn í sögu Breiðabliks.
Ross Forbes skoraði eina mark leiksins af löngu færi á 63. mínútu eftir stutta hornspyrnu en skoska liðið var þá búið að fá nokkrar hornspyrnur í röð.
Samkvæmt tölfræði á BBC voru Skotarnir með boltann 57 prósent af leiknum og áttu ellefu skot gegn sex skotum Blika.
Seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvellinum eftir viku og eiga Blikar eftir þetta nauma tap enn ágæta möguleika á að komast áfram í 3. umferðina.
