Körfubolti

Helena setti persónulegt met í nótt - skoraði 30 stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Mynd/TCU
Helena Sverrisdóttir átti stórleik með TCU í bandaríska háskólaboltanum í nótt en hún skoraði þá 30 stig á 25 mínútum í 81-39 sigri á UT Arlington. Helena hefur aldrei skorað svona mikið í einum leik í búningi TCU.

Helena hitti úr 11 af 17 skotum sínum þar af 5 af 7 fyrir utan þriggja stiga línuna. Hún var einnig með 6 fráköst og 4 stoðsendingar í leiknum. Helena skoraði aðeins 9 stigum minna en mótherjarnir og gerði 18 stigum meira en næststigahæsti leikmaður TCU.

Það má sjá myndband frá blaðamannafundinum með því að smella hér en Helena er þar ásamt þjálfaranum Jeff Mittie og leikmanninum DeLisu Gross.

TCU vann þarna sinn 25. heimaleik í röð en liðið er búið að vinna 5 af 9 leikjum tímabilsins. Helena hefur skorað tíu stig eða meira í öllum þessum sex leikjum og samtals 52 stig í síðustu tveimur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×