Körfubolti

Logi tók til sinna ráða - skoraði 24 stig í sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson átti stórleik og var með 24 stig þegar Solna Vikings vann sjö stiga sigur á Örebro Basket, 85-78, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld. Hlynur Bæringsson og Jakob Örn Sigurðarson töpuðu á heimavelli með liði sínu Sundsvall Dragons.

Solna-liðið var 30-41 undir þegar aðeins ein mínúta og 20 sekúndur voru til hálfleiks en Logi setti þá niður þrjá þrista í röð og minnkaði muninn í 39-41 fyrir hálfeik.

Logi skoraði síðan tíu stig í seinni hálfleiknum en Solna-liðið tók frumkvæðið á lokasprettinum með því að skora tíu frystu stigin í fjórða leikhlutanum. Solna vann loakleikhlutann 25-12 og þar með leikinn með sjö stigum.

Logi hitti úr 7 af 13 skotum sínum í leiknum þar af setti hann niður 5 af 9 þriggja stiga skotum sínum.

Hlynur Bæringsson var með 16 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar þegar Sundsvall Dragons tapaði 83-89 fyrir Sodertelje Kings á heimavelli. Þetta var annað tap Sundsvall í röð síðan að Hlynur snéri til baka eftir meiðsli.

Jakob Örn Sigurðarson var með 6 stig og 4 stoðsendingar en hann lék aðeins í 26 mínútur vegna villuvandræða og fékk á endanum 5 villur þegar meira en fimm mínútur voru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×