Skoðun

Góð ráð til að sundra samfélagi

1. Ráðumst á garðinn þar sem hann er lægstur. Leikskólinn er tilvalinn. Þar er smæsta fólkið, sem ver sig ekki hjálparlaust. Í góðum leikskóla er unnið að því að börn öðlist öryggi og sterka sjálfsmynd og lagður grunnur að gagnrýninni og skapandi hugsun. Markmiðið er að nemendur séu og verði gerendur í lýðræðissamfélagi. Þetta er auðvitað stórhættulegt.

2. Breytum, breytinganna vegna. Breytingar skapa óvissu og ótta. Þá er ráð að sameina litlar stofnanir og sundra stórum.

Tökum geðþóttaákvarðanir og hlustum ekki á fagfólk, sem tefur fyrir og sér ekki ótvíræða kosti þess að skemma menntun. Látum vondar ákvarðanir kvisast út. Ekki segja allan sannleikann. Orðrómur sem vekur óvissu þreytir fólk og þegar kemur að því að framkvæma óvinsælar ákvarðanir er minni mótstaða.

Ingibjörg Kristleifsdóttir

3. Sköpum álag. Ef kennarar starfa undir miklu og langvarandi álagi hafa þeir ekki orku til þess að vera málsvarar skólastarfs. Virðum ekki kjarasamningsbundinn rétt um undirbúningstíma, vökum yfir því að fag- og starfsmannafundir séu ekki haldnir. Svigrúm til samstarfs og samræðu skal forðast þar sem það eykur meðvitund.

4. Fækkum stjórnendum. Leikskóli er lifandi lærdómssamfélag þar sem haldið er utan um barnið og nánasta umhverfi þess. Hann er fastur punktur fjölskyldunnar og lifandi miðpunktur nærsamfélagsins.

Leikskólastjórnendur þekkja sitt fólk og halda utan um menningu og hefðir. Börn, foreldrar, kennarar og annað starfsfólk njóta leiðsagnar, forystu, umhyggju og kennslu þeirra. Þeir eru hagsýnir rekstraraðilar og geta gert ótrúlega hluti úr litlu. Þetta skapar öryggi og festu og smitar frá sér út í samfélagið. Þetta er náttúrlega ótækt. Fækkum stjórnendum, það sundrar skólasamfélaginu og er góð leið til að láta almenning sjá að eitthvað sé verið að gera.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×