Kæra Framara vegna fram slóvensku dómurunum Darko Repensiek og Janko Pozenznik vegna dómgæslu þeirra í viðureignum Fram og Tatran Presov í 2. umferð EHF-keppninnar í handknattleik karla í október hefur verið tekin fyrir og þótti ekkert athugavert við frammistöðu dómara leiksins.
Þetta kemur fram á heimasíðu HSÍ en þar stendur:
"HSÍ barst tilkynning frá Evrópska handknattleikssambandinu og hafa þeir ákveðið að aðhafast ekkert frekar vegna leiks Fram og Tatran Presov í Evrópukeppni félagsliða. Eftir að hafa yfirfarið gögn um leikinn komst EHF að þeirri niðurstöðu að ekkert óeðlilegt hafi átt sér stað og málinu því lokið."
Fyrri leikurinn endaði með sigri Tatran Presov, 27-23, en Fram tapaði síðan 38-17 í seinni leiknum þar sem Framarar kvörtuðu yfir áberandi heimadómgæslu og grunuðu dómaranna um að hafa þegið mútur.
Þrír leikmenn Fram fengu rauða spjaldið fyrri litlar sakir í seinni leiknum og lokastaðan í vítaköstunum var 8-0 fyrir slóvakíska liðið.
Ekkert athugavert við dómgæsluna í Framleiknum í Slóvakíu
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
