Körfubolti

Logi og félagar unnu meistarana á útivelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Gunnarsson.
Logi Gunnarsson. Mynd/basket.se
Logi Gunnarsson og félagar í Solna Vikings unnu 97-92 útisigur á meisturum Norrköping Dolphins í sænsku úrvalsdeildinni í dag og enduðu um leið tveggja leikja taphrinu sína. Logi átti flottan leik og var næststigahæsti maður vallarsins með 24 stig.

Logi var með auk stiganna 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta en hann hitti úr 8 af 16 skotum sínum þar af 5 af 9 fyrir utan þriggja stiga línuna. Logi nýtti líka öll þrjú vítin sín.

Logi var í lykilhlutverki á lokamínútunum þegar hann skoraði fimm stig í röð og hjálpaaði Solna að komast tíu stigum yfir í leiknum þegar aðeins 80 sekúndur voru eftir. Logi hélt sínu liði líka á floti í öðrum leikhluta með því að skora 11 af 21 stigi liðsins og sjá til þess að Solna var tveimur stigum yfir í hálfleik, 42-40.

Norrköping vann þriðja leikhlutann 29-23 og komst fjórum stigum yfir fyrir lokaleikhlutann. Logi og félagar áttu nóg inni og tryggðu sér mikilvægan sigur með því að vinna fjórða leikhlutann 32-23. Logi skoraði átta stig í lokaleikhlutanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×