Innlent

Gengislánaskuldari stal bíl af Lýsingu

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar

Gengislánaskuldari kveðst hafa farið inn á geymslusvæði Lýsingar í nótt og dregið þaðan bíl - til tryggingar endurgreiðslu frá Lýsingu. Hann gefur Glitni 7 daga frest til að veita sér tryggingu fyrir endurgreiðslu og segist ekki ætla að láta það líðast að níðst verði á verkalýðnum til að bjarga fjármálageiranum úr kreppunni.

Maðurinn vildi ekki segja til nafns þegar við ræddum við hann síðdegis.

Maðurinn kveðst hafa í sinni vörslu tæki frá SP fjármögnun , auk bílsins sem hann hafi tekið frá Lýsingu í nótt. SP Fjármögnun segir engin tæki hafa horfið frá sínu geymslusvæði. Ekki náðist í forstjóra eða framkvæmdastjóra Lýsingar, til að staðfesta frásögn mannsins, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í dag.

Maðurinn segist einnig hafa verið í viðskiptum við Glitni - og hótar því að taka einnig tæki frá bankanum fái hann ekki tryggingu fyrir endurgreiðslu innan sjö daga.

En af hverju vill hann ekki bíða endanlega niðurstöðu dómstóla sem vænta má snemma í haust?

„Ég er ekki að stela af Lýsingu frekar en Lýsing stal af mér. Ég er að beita sömu aðferðum og þeir beittu á mig. Þeir töldu mig skulda sér fé og tóku hluti frá mér. Nú svara ég í sömu mynt."

Maðurinn telur fjármögnunarfyrirtækin þrjú, Lýsingu, SP fjármögnun og Glitni, skulda sér samtals um 5 milljónir. „Það varð hrun og má alþýðan ekki standa á sínum rétti. Hve lengi eiga þessi fyrirtæki að fá að halda áfram að níðast á verkalýðnum og stela af alþýðunni. Ég ætla ekki að gefa þeim meiri frest."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×