Fótbolti

Klinsmann getur sofið rólegur

AFP

Stjórnarformaður Bayern Munchen segir að Jurgen Klinsmann þjálfari þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að verða rekinn þó liðið falli úr leik gegn Barcelona í Meistaradeild Evrópu.

Klinsmann hefur verið gagnrýndu nokkuð að undanföru enda stendur ekki steinn yfir steini í leik Bayern í þýsku úrvalsdeildinni. Liðið steinlá 5-1 fyrir toppliði Wolfsburg á laugardaginn og hefur á engum tímapunkti náð toppsætinu í úrvalsdeildinni í vetur sem er harla óvenjulegt á þeim bænum.

Klinsmann hefur ef til vill bjargað andlitinu með góðum árangri í Meistaradeildinni, en þar hefur gengi liðsins verið ofar miklum væntingum Bayern-manna ef eitthvað er.

Karl-Heinz Rummenigge stjórnarformaður ætlar sér ekki að taka það út á Klinsmann ef Bayern fellur úr leik fyrir ógnarsterkum Spánarmeisturunum.

"Það er enginn að hugsa um það að Klinsmann missi starfið. Okkur dettur ekki í hug að lýsa því yfir að við ætlum að reka þjálfarann ef við fáum skell gegn Barcelona. Klinsmann er auðvitað með samning og við sjáum ekki fram á annað en að staðið verði við hann," sagði Rummenigge í samtali við þýska fjölmiðla.

Bayern verður án tveggja miðvarða í fyrri leiknum á Spáni. Daniel Van Buyten missir af leiknum af persónulegum ástæðum og Brasilíumaðurinn Lucio er meiddur. Það kemur því væntanlega í hlut Martin Demichelis og hins 19 ára gamla Breno að standa í hjarta varnarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×